top of page

Skeiðakenningin

  • Hrönn Stefánsdóttir
  • Apr 24, 2022
  • 4 min read


Að takast á við langvarandi veikindi og verki er erfitt bæði líkamlega og andlega. Daglegar athafnir sem aðrir taka sem sjálfsögðum hlut, eins og að fara fram úr rúminu, fara í sturtu, klæða sig eða undirbúa máltíð, geta verið krefjandi fyrir einstakling sem svo er ástatt um. Margt fólk sem er með ósýnilega sjúkdóma, eins og margir gigtarsjúkdómar eru, verður því miður vart við það að þeim er ekki trúað, einfaldlega af því að veikindin eru ekki sýnileg.

Ein leið til að útskýra hvernig þetta hefur áhrif á daglegt líf er að nota „skeiðakenninguna“. Skeiðakenningin notar skeiðar sem myndlíkingu fyrir orku. Ein skeið táknar þá orku sem þarf til að klára verkefni þegar fólk er með skerta orku. Skeiðakenningin hjálpar fólki með langvarandi heilsufarsvandamál að útskýra fyrir öðrum hversu mikil orka er notuð við ákveðnar athafnir. Hver einstaklingur hefur takmarkaðan fjölda skeiða í eigin orkubirgðum fyrir daginn sem skipta þarf

upp á milli athafna daglegs lífs þannig að þær endist út daginn. Mismunandi athafnir fækka skeiðunum eftir því sem líður á daginn.

Hvernig varð kenningin til?

Skeiðakenningin er persónuleg saga, sett fram af Christine Miserandino, og er vinsæl meðal margra sem þjást af langvinnum veikindum, en hún setti hana fram á vefsíðu sinni “But you don’t look sick”. Hún lýsir vel hugmyndinni um takmarkaða orku með því að nota skeiðar sem einingar fyrir orku. Christine sem er með rauða úlfa, var á kaffihúsi með vinkonu sinni árið 2003, þegar vinkonan spurði hana hvernig það væri að vera veik og Christine þurfti að finna leið til að útskýra fyrir henni hvernig það er að vera með takmarkaða orku. Christine notaði skeiðar sem hún safnaði frá öðrum borðum sem myndlíkingu til að lýsa daglegri baráttu sinni fyrir vinkonu sinni. Hún byrjaði á því að rétta vinkonu sinni 12 skeiðar. Hún bað þá vinkonu sína að lýsa hverri athöfn sem hún gerði þann daginn. Í hvert sinn sem vinkona hennar minntist á athöfn sem myndi taka toll af Christine var skeið tekin til baka. Þegar skeiðunum fækkaði gat vinkona Christine séð hvernig daglegar athafnir sem flestir taka sem sjálfsögðum hlut geta verið mjög erfiðar fyrir einstaklinga með langvarandi heilsufarsvanda.

Af hverju er vinsælt að nota skeiðakenninguna?

Fljótlega varð skeiðakenningin vinsæl sem lífsstílsleiðbeiningar fyrir einstaklinga með ósýnilega sjúkdóma. Skeiðakenningin hjálpar ekki aðeins við að útskýra orkuna sem þarf til að stunda ákveðnar athafnir fyrir öðrum, heldur hjálpar hún einnig einstaklingum með langvarandi verkjavanda að stjórna daglegum athöfnum sínum til að tryggja að orkustig þeirra haldist allan daginn. Markvisst notkun skeiðakenningarinnar hjálpar einstaklingum með langvinna verki að stjórna sársauka sínum og orku betur. Nú er skeiðakenningin notuð af fólki með margvíslega sjúkdóma, svo sem gigtarsjúkdóma, MS, þunglyndi og fleira.

Hvernig er kenningin notuð til að hjálpa fólki í daglegu lífi

Þegar fólk þjáist af langvarandi sjúkdómum hefur það takmarkaða orku fyrir daginn sem það verður að nota skynsamlega. Með því að læra að horfa á athafnir daglegs lífs og skilja að allt sem við gerum kostar orku hjálpar það fólki að skipta þessari takmörkuðu orku niður þannig að hún endist út daginn. Einnig getur hún hjálpað fólki að gera raunhæfar áætlanir til að skipuleggja dagana. Það er mikilvægt að horfa á athafnir hvers dags og skipta þeim niður í það sem þarf að gera, það sem væri gott að gera og það sem gaman væri að gera. Til að halda góðu jafnvægi í lífinu er mikilvægt að reyna að láta hvern dag innihalda blöndu af því sem er nauðsynlegt að gera og það sem veitir okkur ánægju. Þó að Christine hafi notað 12 skeiðar er hægt að aðlaga þann daglega fjölda skeiða sem miðað er við að hverjum einstaklingi. Þetta er persónuleg ákvörðun og fjöldinn sem hver einstaklingur miðar við getur verið meira eða minna en 12 skeiðar. Þó að hægt sé að nota auka skeiðar á einum degi, dragast þær frá heildarfjölda næsta dags. Hins vegar, ef allar skeiðar eru ekki notaðar á tilteknum degi, bætast þær ekki við skeiðarfjölda næsta dags. Ef við förum ekki skynsamlega með orkuna okkar komum við minna í verk og jafnvel ofgerum okkur þannig að við þurfum að taka nokkra daga í að borga það til baka.

Það hve margar skeiðar eru notaðar við hvert verkefni er mismunand eftir einstaklingum. Sumir gætu þurft eina skeið til að ljúka ákveðinni athöfn, en annar gæti þurft þrjár skeiðar til að ljúka sömu athöfn. Hér er dæmi um hvernig skeiðar gætu verið notaðar yfir daginn

  • Fara fram úr rúminu (1 skeið)

  • Fara í sturtu(1 skeið)

  • Klæða sig (1 skeið)

  • Taka til morgunmat (1 skeið)

  • Að fara til og frá vinnustað (2 skeiðar)

  • Ljúka ákveðnum verkefnum í vinnu eða námi (3 skeiðar)

Þetta er bara dæmi. Hver einstaklingur verður að meta sjálfur hve mikla orku (skeiðar) hver athöfn tekur fyrir hann.

Almennt séð eru athafnir sem þurfa ekki skeið meðal annars að panta tilbúin mat, horfa á sjónvarp, vafra á netinu, tala í síma og lesa bók. Hins vegar þarf í sumum tilfellum skeiðar fyrir þessar athafnir. Þetta er persónuleg ákvörðun þar sem erfiðleikastigið er mismunandi eftir einstaklingum.

Tillögur um hvernig hægt er að spara orkuna (skeiðarnar) fyrir einstaklinga með langvinna verki:

  • Notaðu vinnukoll meðan þú vinnur verkefni sem venjulega krefjast þess að þú standir, eins og að fara í sturtu, elda eða þrífa.

  • Notaðu góða daga til að elda mat sem þú getur átt seinna. Að elda og frysta mikið magn af mat á góðum dögum er góður undirbúningur fyrir daga þegar þreytan og verkirnir eru meiri.

  • Láttu senda heim vörur sem notaðar eru reglulega til að forðast óþarfa ferðir í búðina.

  • Skipuleggðu hvíldardag einu sinni í viku.

  • Segðu „nei“ þegar þú treystir þér ekki til að bæta við þig verkefnum.

Hægt er að fá meiri upplíðsingar um skeiðarkenninguna á síðunni https://butyoudontlooksick.com/articles/written-by-christine/the-spoon-theory/.

Höfundur: Hrönn Stefánsdóttir

 
 
 

Comments


Post: Blog2_Post

©2022 by Lupushópur Gigtarfélagsins. Proudly created with Wix.com

bottom of page