top of page

Gott að hafa í huga þegar farið er til læknis

  • Hrönn Stefánsdóttir
  • Apr 24, 2022
  • 3 min read

Besta leiðin til að hlúa að heilsunni er að vera virkur þátttakandi í meðferðinni. Mikilvægt er að leita sér upplýsinga og nota þær þannig að þú getir tekið virkan þátt í öllum ákvörðunum sem teknar eru um meðferð þína.

Rannsóknir sýna að sjúklingar sem eru í góðu sambandi við lækninn sinn eru líklegir til að vera ánægðari með meðferðina og ná betri árangri.

Sjúkdómsgreining byggir að stærstum hluta á þeim upplýsingum sem sjúklingurinn gefur lækninum og skoðun læknisins á sjúklingnum og niðurstöður úr rannsóknu eru notaðar til að styðja við þá greiningu.

Þessar munnlegu upplýsingar, „sjúkdómssagan“, eru mjög mikilvægar og eru að mestu fengnar með tveimur leiðum – í fyrsta lagi þegar sjúklingurinn svarar spurningum læknisins og í öðru lagi þegar hann segir hluti án þess að spurt hafi verið um þá.

Þó gert sé ráð fyrir að læknir og sjúklingur tali sama tungumálið gera þau það ekki alltaf. Læknar nota oft fræðimál, sem getur gert það að verkum að sum orð hafa aðra merkingu fyrir lækninum en sjúklingnum Mikilvægt er að telja allt til, jafnvel einkenni eða líðan sem sjúklingurinn telur að tengist ekki, því fyrir lækninum geta þetta verið mikilvægar upplýsingar þó að sjúklingurinn átti sig ekki á því.

Af þessum ástæðum er mikilvægt sjúklingurinn útskýri nákvæmlega hvað hann á við og skammist sín ekki þó hann skilji ekki eitthvað, það gerir öllum lífið auðveldara og kemur í veg fyrir vandamál. Sama á við ef læknirinn spyr sjúklinginn hvað hann á við þá er mikilvægt að útskýra hlutina á annan hátt til að tryggja að læknirinn skilji hvað átt er við.

Hér eru ráð sem stuðla að því að þú og læknirinn þinn vinni saman að því að bæta heilsu þína.

Gefðu upplýsingar. Ekki bíða eftir að vera spurður.

  • Þú veist mikilvæga hluti um einkenni þín og heilsufarssögu. Segðu lækninum allt það sem þú telur að hann/hún þurfi að vita. Læknar eru líka mannlegir og gætu gleymt að spyrja um ákveðna hluti.

  • Það er mikilvægt að gefa lækninum þínum persónulegar upplýsingar – jafnvel þó þér finnist það óþægilegt eða vandræðalegt.

  • Skráðu heilsufarssögu þína og hafðu hana með þér og mundu að uppfæra hana.

  • Hafðu með þér lista yfir þau lyf sem þú tekur, einnig lausasölulyf – ásamt upplýsingum um það hvenær og hve oft þú tekur þau og í hve stórum skömmtum.

  • Láttu lækninn vita um ofnæmi eða aukaverkannir sem þú hefur fundið fyrir vegna lyfja sem þú tekur.

  • Láttu lækninn vita um náttúrulyf sem þú notar eða önnur óhefðbundin lyf og meðferðir sem þú færð.

Fáðu upplýsingar

  • Spurðu spurninga. Ef þú gerir það ekki heldur læknirinn að þú skiljir allt sem komið hefur fram.

  • Skrifaðu þær spurningar sem þú hefur niður fyrirfram. Raðaðu þeim í röð eftir mikilvægi til þess að tryggja að tími verði til að spyrja þeirra og fá svör við þeim.

  • Það getur verið gott að taka einhvern með sér til læknisins sem getur hjálpað við að spyrja spurninga og skilja svörin.

  • Ef það hjálpar skalt þú biðja lækninn um að teikna skýringarmyndir.

  • Skrifaðu hjá þér minnispunkta. Lækninum er sama ef það hjálpar þér að muna það sem þið talið um.

  • Láttu lækninn vita ef þú þarft meiri tíma. Ef það er ekki tíma í þetta sinn pantaðu þá annan tíma.

  • Biddu lækninn um skriflegar leiðbeiningar, sérstaklega ef þér er ávísað nýju lyfi.

Þegar þú ferð frá lækninum

  • Hafðu samband við lækninn ef þú ert í vandræðum með lyfið eða einkennin versna.

  • Ef þú hefur farið í rannsókn og átt von á því að heyra frá lækninum en hann hefur ekki samband, hringdu þá á læknastofuna eða í læknaritarann og biddu um að fá að tala við lækninn í símatíma eða fáðu að skilja eftir skilaboð.

  • Ef læknirinn segir að þú eigir að fara í rannsókn, fylgstu með því að tíminn sé bókaður.

  • Lestu alla upplýsingaseðla sem þú færð og geymdu þá á meðan þú ert í meðferðinni.

  • Hafðu samband við stuðningshóp sjúklinga ef þeir eru til staðar

Mundu

Vertu heiðarleg/ur þegar þú segir lækninum þínum hvernig þér líður, segðu ekki aðeins hvar þú finnur til heldur hversu lengi þú hefur fundið fyrir einkennunum.

Segðu honum/henni hvað þér finnst um ástand þitt og meðferð. Ef þú vilt ekki þyggja meðferð er betra að segja það og ræða aðra möguleika en að fara í burtu án þess að ræða það.

Læknirinn vill hjálpa þér til að ná eins góðri heilsu og mögulegt er en getur ekki gert það án þess að þú takir virkan þátt í meðferðinni.

Umönnun þín mun skila miklu betri árangri ef læknirinn veit hvernig þér líður. Þú þarft ekki að segja að þú „hafir það gott"

Ef þú ert í uppnámi vegna ástands þíns skaltu ræða við lækninn. Hann/hún gæti hugsanlega mælt með ráðgjafa eða sálfræðingi sem getur hjálpað þér að takast á við tilfinningar sem þú finnur fyrir og ákvarðanir sem þú gætir þurft taka varðandi meðferðina.

Það er líkami þinn sem er verið að meðhöndla – berðu ábyrgð á honum og gerðu samband læknis/sjúklingsins að samstarfi.




 
 
 

Comments


Post: Blog2_Post

©2022 by Lupushópur Gigtarfélagsins. Proudly created with Wix.com

bottom of page